31.3.2008 | 11:33
Gamlar hafnir og nýjar.
Það blása kaldir norðan vindar um Snæfellsnesið og ekkert gaman að vera á ferð útivið. En það er nú víst óhjákvæmilegt, enda er langt páskafrí hjá mér loks á enda, líklega haldið til sjós í kvöld. Ég var í fríi fyrsta túrinn eftir páska, svo þessvegna er mitt páskafrí svona langt.
Svona áður en ég held á sjóinn þá langar mig að lokum, og af gefnu tilefni að bæta aðeins við um væntanlega Landeyjahöfn eða Bakkafjöruhöfn öðru nafni. Skoðanir hafa víst verið skiptar og margir tjáð sig um þess væntanlegu höfn sem á að fara að gera þarna suðurfrá, meðal annas til samgöngubóta til Vestmannaeyja.
Fyrir um 7 árum síðan var ég háseti á dragnótabát frá Reykjavík, sem gerður var út það sumar frá Þorlákshöfn. Við vorum á útilegu og vorum á veiðum með allri suðurströndini þetta sumar frá Eldey austur í Lónsbugt. Meðal þeirra staða sem við vorum að veiðum á var Bakkafjaran skammt frá þeim stað þar sem höfnin á að koma, mjög grunt og nálægt landi. Þarna var góð ýsuveiði megnið af sumrinu. Þegar við vorum þarna var gott veður og ládauður sjór, en í eitt skiptið vorum við þarna í suðvestan og sunnan kalda ásamt öðrum bát og alveg uppí brimgarðinum. Það hefði ekki verið gott að fá í skrúfuna eða drepist á vél þarna við þessar aðstæður því þá hefði verið mikil hætta á ferðum. Báturinn sem var samskipa okkur var eiginlega innan við fyrsta brotið, enda minni og liprari. Okkur á hinum stóð svona eiginlega ekki á sama, en það var öryggi að við vorum 2 þarna.
Sumarið 2006 var ég svo á humri frá Þorlákshöfn og gekk vel þrátt fyrir ríkjandi sunnanáttir nánast alla vertíðina. Það var alveg ömurlegt sumar þarna við suðurströndina. Við sigldum oft framhjá Bakkafjöru þetta sumar og nánast alltaf eða oftast var mikið brim þarna, því sjóinn náði aldrei að slá niður milli lægða og vinda.
Núna þegar ég er að róa úr Rifshöfn og má búa við það að skipið mitt kemst ekki út eða inn nema á réttu falli, þá skil ég ekki þann forgang miðað við þær hugmyndir sem ég sá kynntar í síðasta blaði Siglingastofnunar um bætur á Rifshöfn. Löngu tímabærar bætur. Eins eru fleiri hafnir eins og t.d. Hornafjörður og Sangerði sem þyrftu örugglega á endurbótum á innsiglingu að halda eins og Rifshöfn, auk ýmisa annara framkvæmda. Í Þorlákshöfn er búið að breyta, stækka og endurbæta höfnina meða tilliti til siglinga til Eyja og vöruflutinga til og frá landinu, auk þess sem Eyjamenn sjálfir virðast hafa meiri áhuga á endurbótum í sinni höfn, en að fá Bakkafjöruhöfn.
En Bakkafjöruhöfn mun koma og við verðum bara að sjá hvað setur og ekki fara út í einhverja öfgafulla umræðu sem engu skilar. Best er að vona það besta og að framkvæmdir í Bakkafjöru verði yfirstíganlegar og árangursríkar, og enginn þurfi að segja eftirá: ég sagði það.
Kv að sinni