28.10.2008 | 21:30
Frítúr
Þessa dagana er ég í frítúr og á Skaganum með Rannveigu og stelpunum. Rannveig er í staðlotu í KHÍ og ég reyni að hafa ofanaf fyrir stelpunum á meðan.
Ég kom austan frá Vopnafirði aðfaranótt mánudagsins í arfavitlausu veðri með flutningabíl frá Ragnari og Ásgeir sem var að fara með fiskinn af okkur vestur í Rif. Sá sem kom að sunnan til að leysa mig af lenti í þvílíkum hrakkningum og þurfti Björgunarsveitin á Héraði að bjarga honum tvisvar ofan af heiðum fyrir austan. Örvar komst svo ekki út frá Vopnafirði fyrren í hádeginu á mánudag og varð svo að halda í var við Langanes í gær og lá þar fram á miðja nóttina, þá dúraði og þeir gátu farið að leggja.
Ég skaust svo í nótt suður í Þorlákshöfn að kíkja aðeins á þá á Friðriki Sigurðssyni og ná í smávegis sem ég átti þar. Ég tók yfirstýrimanninn af honum með úr Kópavogi, en hann var að koma úr fríi, og tók svo 2. stýrimann með í bæinn í frí. Þeir eru í ufsa og það er hörku fiskirí og mikið púl. Línan er bara hobbý miðað við það.
Það verður víst að segjast að þetta árið hafi veturinn skollið snemma á fyrir norðan og austan, og með þvílíkum krafti að maður hefur ekki séð annað eins á þessum árstíma í seinni tíð. En samkvæmt spám á þetta að réna næstu daga og hlýna aftur í bili. Þó var kominn það mikill snjór á Akureyri og í Víkurskarðið að hann er varla á förum áður en næsta hret skellur á. Eða það held ég allavega.
Athugasemdir
Já hann hefur kyngt niður snjó hér nyrðra. Í dag hafa öll ruðningstæki verið á fullu að hreinsa til áður en hlánar og margir bílar að keyra snjó í sjóinn. Já hann hlaut að vera að sunnan þessi sem lét sig dreyma um að fara veginn um Öxi og Hellisheiði eystri í svona veðurfari. Hann hefur greinilega ekki vitað að önnur leið þótt lengri séð er fær. Annars vegar með fjörðum og síðan upp Jökkuldal og Vopnafjarðarheiði til Vopanfjarðar. Hafðu það gott á Skaganum. Þar er gott að vera enda reyndi ég þá upplifun í sumar eftir yfir 20 ára hlé.
Haraldur Bjarnason, 29.10.2008 kl. 18:04
Þakka þér fyrir Halli, það er yfirleitt gott að koma á Skagann enda bjó ég þar í 4 ár. Strákurinn sem lenti í þessum hrakkningum er reyndar hálfur Grænlendingur og hálfur Dani og búinn að búa hér í á annan áratug. Megin orsökin fyrir þessum hrakningum hans voru þau að hann var ókunnugur svæðinu og helst hefði þurft að setja upp merkingar um að t.d. Hellisheiði eystri væri ófær og lokuð. Við fórum á flutningabílunum Vopnafjarðarheiði og Möðrudalsöræfin og það var mjög blint á köflum allt niður í eina stiku og jafnvel hálfa. Þessu er að slota svo ég kemst líkleg á föstudag eða laugardag norður.
Bestu kveðjur
Sigurbrandur Jakobsson, 29.10.2008 kl. 19:36