26.7.2008 | 18:26
Snæfellsnes á góðum degi
Það var fallegt um að litast á Snæfellsnesinu í dag. Að vísu heilsaði morguninn með austan strekkingi, sem fór svo að linast þegar leið að hádeginu, og sólin fór að skarta sínu fegusta. Í Grundarfirði er fjölskylduhátíðin Á góðri stundu, og þar virtist vera margt um manninn. En það sem merkilegra var að ekki virtust vera mikið færri ferðamenn í Hólminum þegar við vorum þar áðan. Að vísu var að nálgast brottför hjá Baldri, en það var samt biðröð út úr dyrum á Bensó og slatti af ferðamönnum í Bónus að versla. Tjaldstæðið var þéttskipað tjöldum, fellihýsum og þess háttar. Á bakaleið úr Hólminum var maður stanslaust á bremsuni vegna túrista á bílaleigubílum sem voru að dóla og skoða hið stórkostlega umhverfi Snæfellsnesins. Hérna útfrá var líka talsverð umferð og nóg að gera í sjoppuni í Ólafsvík. Fólk er greinilega að fíla töfra Snæfellsnesins, og er ekki skrítið, því á svona dögum er nesið í sínum fegustu klæðum. En er eftir ein bæjarhátíð en. Aðalhátíðin vil ég segja og reikna með að hún verði að venju fjölsótt. En það eru Danskir dagar í Stykkishólmi, sem eru að verða með elstu bæjarhátíðum landsins. Vonandi verður ekki lát á að halda Danska daga hvernig sem fer, því alltaf má bæta úr því sem miður fer, eins og gert hefur verið með Danska daga. Danskir dagar eru líka á góðum tíma hvað það varðar að vera undirlok sumars og sumarfría, en að vísu í samkeppni við Menningarnótt. Ég er búinn að fara það oft á Menningarnótt að í mínum huga eru Danskir dagar mörgum sinnum betri, því ekki á maður á hættu á að vera fastur í umferðahnútum og troðast í þvögu. Svo er flugeldasýningin í Súgandisey alveg dýrleg. Ég mæli með að fólk gefi Menningarnótt frí og skelli sér í Hólminn í ágúst.
Athugasemdir
Hólmurinn er að verða með helstu ferðamannastöðum landsins og ekki að undra enda byggðarlagið með þeim snyrtilegri á landinu og þar ber hæst frábært viðhald gamalla húsa. Sjáðu fiksvinnslu Sigurðar Ágústssonar við höfnina. Ekki gæti nokkrum manni dottið í hug að þarna væri rækjuvinnsla, snyrtimennskan í fyrirrúmi. Þú nefnir bæjarhátíðina í Grundarfirði og ég tek eftir að þú kallar hana "Á góðri stundu", sem er auðvitað hárrétt en því miður hefur málvilla slæðst inn í nafnið hjá Grundfirðingum og þeir kalla hana "Á góðri stund", gleyma að beygja orðið stund. Svona festast stundum málvillur í okkar ylhýra íslenska máli. - Hef verið talsvert verið á ferðinni um Snæfellsnes að undanförnu og það heillar. - Kveðja af Skaganum.
Haraldur Bjarnason, 29.7.2008 kl. 23:11
Þakka þér kveðjuna Halli. Það var aldeilis blíðan á Skaganum í dag. Mælirinn í bílnum sló í 25 gráður. Satt er það að gömlu húsin í Hólminum eru fjársjóður hvað varðar varðveislugildi. Eins er snyrtimennskan í hávegum höfð í Hólminum, og Stykkishólmshöfn hefur fengið Bláfánaviðurkenningu mörg ár í röð. Gaman að heyra að fólk nýtur náttúruperlna Snæfellsnesins. Þetta er mitt heimasvæði og mjög hugleikið mér. Það getur verið að það sé smá mistök hjá mér líka í stafsetningu því mig minnir að Grundfirðingar auglýsi hátíðina sína "Á góðri stund", manni er bara tamt að nefna hana á stundu.l
Bestu kveðjur undan jökli á Skagan. (Ég er kominn aftur vestur)
Sigurbrandur Jakobsson, 29.7.2008 kl. 23:35
Nei þetta er rétt málfræðilega hjá þér það á að segja "Á góðri stundu", kveðja, sjáumst þegar ég verð næst á ferð þarna vestra sem verður örugglega fljótlega.
Haraldur Bjarnason, 29.7.2008 kl. 23:45
Já og ég minni en og aftur á Danska daga í Stykkishólmi 15-17 ágúst. Verði gott veður má gera ráð fyrir góðri skemmtun. Góð ástæða til að kíkja á nesið.
Sigurbrandur Jakobsson, 29.7.2008 kl. 23:49